Íris bæjarstjóraefni Fyrir Heimaey

Íris Róbertsdóttir skipar fyrsta sæti á framboðslista bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum. Íris, sem einnig er oddviti framboðsins svaraði nokkrum spurningum frá ritstjóra Eyjar.net um kosningarnar framundan og málefni sem hafa verið í umræðunni í bæjarfélaginu.

Nú ertu kominn á fullt í pólitík, hvernig líst þér á það?

Bara vel. Mér hefur alltaf fundist pólitík skemmtileg þótt hún hafi vissulega sína galla líka. Það er mikið af góðu og kraftmiklu fólki í þessu og ég veit að þetta verður skemmtilegt verkefni.

Var erfið ákvörðun að ákveða að taka slaginn?

Já, hún var erfið – margra hluta vegna.

Hvaða málefni telur þú að verði efst á baugi í kosningabaráttunni?

Miðað við umræðuna undanfarið þá verða það hagmunagæslumálin okkar gagnvart ríkinu; samgöngumál og heilbrigiðsmál. Ég hef líka mikinn áhuga á fræðslumálunum og finnst að aukin áhersla ætti að vera á þau. Stjórnsýslan sjálf og gagnsæi í þeim efnum er líka mikilvægt málefni. Einnig tel ég að ýmislegt megi bæta í þjónustu við bæjarbúa. Lítið dæmi um það er að við nýtum okkur ekki íbúagáttina okkar og erum enn með mjög mikið af öllum umsóknum um leikskólapláss, afslætti og fl. á pappír.

Nú talið þið fyrir auknu íbúalýðræði, ef þið komist til valda. Hvernig ætlið þið að útfæra það?

Það þarf að opna bókhald Vestmanneyjabæjar og bæta aðgengi bæjarbúa að upplýsingum. Góð fyrirmynd í þeim efnum er rafræn stjórnsýsla hjá Ísafjarðarbæ. Í kjölfar bættrar og aukinnar upplýsingagjafar ætti síðan að auka beint lýðræði; bera stórar ákvarðanir undir bæjarbúa í beinum íbúakosningum. Ágætt dæmi um það væri t.d. ákvörðun um hvort Vestmannaeyjabær ætti að taka ábyrgð á rekstri Herjólfs með þeirri áhættu sem því fylgir.

Hver er bæjarstjóraefni listans?

Stjórn bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey, undirbúningshópur framboðsins og frambjóðendur á listanum hafa sameiginlega tekið þá ákvörðun að oddviti listans sé jafnframt bæjarstjóraefni hans, komi slíkt til álita að loknum kosningum.

Hvernig list þér á áætlanir bæjarstjórnar um að fara að reka nýjan Herjólf?

Ég hef ekki enn séð samninginn – en var á kynningarfundinum um hann í síðustu viku. Þjónustuaukningin sem felst í samningnum er mjög góð og til mikilla hagsbóta fyrir okkur Eyjamenn en henni hefði mátt ná fram án þess að yfirtaka reksturinn sjálfan. Ég hef sjálf haft efasemdir um að Vestmannaeyjabær eigi að yfirtaka reksturinn – og þar með þá áhættu og ábyrgð sem honum fylgir.

Þessi aukna þjónusta hefði einfaldlega orðið hluti af skilmálunum í nýju útboði, sem hefði verið á forsendum heimamanna, ef sú leið hefði verið farin. Enda gert ráð fyrir því í fjárlögum og þar með afstöðu stjórnvalda að sú rekstrarhagræðing sem felst í nýja skipinu umfram það gamla verði nýtt í bætta þjónustu en ekki í sparnað fyrir ríkið. Þetta er hins vegar ágætt dæmi um það sem ég nefndi áðan um beint lýðræði. Það hefði átt að kynna þennan samning fyrir bæjarbúum og þeir síðan að ákveða sjálfir hvort þeir vildu yfirtaka reksturinn eða ekki. En nú er búið að gera þennan samning og við hljótum öll að vona að vel takist til.

Viltu koma einhverju á framfæri við bæjarbúa – nú í upphafi kosningabaráttunnar?

Vestmannaeyjar eru góður staður til að búa á. Margt jákvætt er í gangi en við getum gert betur á mörgum sviðum. Þjónustu bæjarins er hægt að bæta og vinna málin betur með bæjarbúum sjálfum.