Vannýtt gersemi

Sundlaugin okkar og svæðið um kring er til mikillar fyrirmyndar og hafa lífsgæði okkar Vestmannaeyinga verið bætt með þessari framkvæmd. Við kynnum svæðið fyrir gestum okkar með stolti og gleðjumst yfir hvað þeir nýta það vel.

En getum við gert betur með bættri þjónustu við bæjarbúa?

Sundlaugin er vel sótt og nýtir fólk á öllum aldri þjónustu hennar. Taka þarf tillit til margra þjónustuþátta þegar fjölbreyttur hópur nýtir slíka þjónustu. Opnunartími þarf að vera langur og fjölbreytt afþreying þarf að vera fyrir alla jafnt unga sem aldna. Huga þarf að hagsmunum bæjarbúa og sníða svæðið fyrir alla aldurshópa samfélagsins. Þetta leiðir af sér aukna þjónustu við okkar gesti. Allir eru jafn mikilvægir.

Bætum þjónustuna með því að huga að auknum opnunartíma, hann á ekki að stýrast af árstíðum. Höfum útisvæðið okkar opið allt árið um kring. Til þess þarf að bæta við búnaði til upphitunar og vinna í því að stöðva vindkælingu yfir kaldasta tíma ársins. Einnig er þörf fyrir upphitaða barna innilaug sem hægt er að nýta á fjölþættan hátt. Mögulegt er að byggja hana út frá austurhlið innilaugarinnar sem fyrir er.

Við viljum byggja upp samfélag þar sem allir njóta sín og vilja búa. Setjum íbúana í forgang. Leggjum í þetta verkefni það fjármagn sem til þarf og gerum allt sundlaugarsvæðið aðgengilegt fyrir alla alltaf.

Verum metnaðarfull og göngum saman þessa vegferð Fyrir-Heimaey

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum.