Er Vestmannaeyjabær vel rekið sveitarfélag?

Gummi_A_cr

Okkur er reglulega sagt að Vestmannaeyjabær sé vel rekið sveitarfélag. En hvað þýðir vel rekið sveitarfélag? Er það sveitarfélagið sem á mestu peningana inn á banka, skuldar minnst, á mest eða veitir bestu þjónustuna?

Það er sjálfsagt ekkert eitt rétt svar við því frekar en öðru, þetta þarf væntanlega að haldast í hendur og vera í jafnvægi, en getur verið að hægt sé að gera hlutina betur?

Ef skoðað er í Lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga árið 2016 sem Samband Íslenskra Sveitarfélag gefur út þá sést að Vestmannaeyjabær setur 30% af sínu skatttekjum í grunnskólann sinn. Til að átta sig á því hvort að það sé mikið eða lítið skoða ég til samanburðar Kópavog 34%, Seltjarnanes 31%, Garðabæ 34%, Grindavík 41%, Akranes 30%, Ísafjörð 39%, Sveitarfélagið Skagafjörð 45%, Fjarðabyggð 44% og Árborg 40%.

Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 4,0 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skorar 4,2, Seltjarnanes 4,2 og Akranes 4,0. Vestmannaeyjar eru í 4. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.

Ef leikskólarnir eru skoðaðir sjást svipaðar tölur, Vestmannaeyjabær setur 14% af skatttekjum sínum í leikskólana á meðan að Kópavogur setur 19%, Seltjarnanes 16%, Garðabæ 19%, Grindavík 17%, Akranes 16%, Ísafjörð 20%, Skagafjörður 17%, Fjarðabyggð 21% og Árborg 19%.

Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 3,9 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skora 4,3 og Seltjarnanes 4,2. Vestmannaeyjar eru í 8. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.

Samtals fá fræðslu- og uppeldismál 44% af skatttekjum Vestmannaeyjabæjar á meðan Garðabær setur 53%, Seltjarnanes 54%, Kópavogur 58%, Fjarðabyggð 54%, Akranes 47%, Grindavík 55%, Ísafjörður 59%, Sveitafélagið Skagafjörður 63% og Árborg 60%.

Það er ákvörðun að veita góða þjónustu. Það er hægt að gera betur.

 

Guðmundur Ásgeirsson

 

Höfundur skipar 4.sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.