Hver er munurinn á framboðunum í samgöngumálum

Svenni nærmynd

Nú þegar stutt er til kosninga er rétt að skoða hvað E-listinn og D-listinn hafa áorkað í samgöngumálum, annað en að vera sammála í öllu er varðar samgöngur á sjó.

Bæði framboðin virðast hafa gleymt þeim forsendum sem þau tóku undir í minnisblaði með samantekt um stöðu mála í bæjarráði 4.12.2014 vegna tilkomu nýju ferjunnar: ,,Viðmið bæjarfulltrúa hafa  verið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10‘‘.  Árangur af þessari 7-0 samþykkt er að nú stefnir í rúma 70 heila daga á ári í frátafir! Enn eru þau sammála og nú í því að viðhalda góðum samgöngum á sjó eins og segir hjá E-listanum og svo ætlar D-listinn að sýna áræði og þor og stíga þungt til jarðar í því að stórauka fjölda ferða á dag í Landeyjahöfn. Nú fyrir utan flugið og eru það nú ekki góð tíðindi fyrir okkur miðað við árangur síðastliðinna 12 ára.

Staðreyndin er sú að sá fjöldi ferða sem nýja ferjan getur farið frá 06:30 til 23:30 eða á 17 tímum eru aðeins 7 ferðir. En aftur að minnisblaðinu úr bæjarráði frá 4.12.2014 um ,,Flutningsgetu‘‘, þar segir: ,,Af þeim sökum er kapp lagt á að tryggja að nýja skipið geti siglt að minnsta kosti 8 ferðir á dag fyrir minni kostnað en Herjólfur siglir 5 ferðir á dag og innan sama tímaramma“. Hver er útkoman?

Herjólfur getur auðveldlega farið 5 ferðir á tæpum 11 tímum en nýja ferjan þarf um 12 ½ tíma til að ná 5 ferðum. Til að ná 8 ferðum þarf nýja ferjan hvorki meira né minna en um 20 tíma.

Er nema von að hvorugt framboðið minnist á aðkomu sína að nýju ferjunni í afrekaskrá síðastliðinna ára.  Lítið fer fyrir því að kynna árangur sammálalistanna um endurbætur Landeyjahafnar.  Víkjum aftur að minnisblaði bæjarráðs frá 4.12.2014 um ,,Höfnina‘‘:  ,,Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera  úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar‘‘. Sést það einhverstaðar?

Við hjá bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey X-H álítum ástandið í samgöngum á sjó óásættanlegt og viljum einnig stórbæta samkeppnishæfni í flugsamgöngum.

Það mun verða eitt af okkar fyrstu verkum í samgöngumálum að reyna að leysa flutningsþörfina á álagstímum sem eru frá kl. 8 til 13 og frá 17 til 22.  Það munum við gera með því að leita eftir háhraðaferju sem gæti t.d siglt með nýju ferjunni yfir sumartímann á meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn. Samhliða þessu munum við leita til þeirra aðila sem eru að framleiða fullkomnustu og afkastamestu ferjurnar í dag til að koma og skoða hér aðstæður og koma með tillögur að ferju sem getur þjónað þörfum okkar Vestmanneyinga.

Einnig skorum við á ráðherra samgöngumála að láta tafarlaust fara fram óháða úttekt á því hvernig hægt sé að bæta aðkomuna að Landeyjahöfn eins og stefnt var að í upphafi.

Kæru Vestmannaeyingar það þarf „kjark til að breyta‘‘ og hann höfum við.

Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.

 

Sveinn Rúnar Valgeirsson.

 

Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.