Hver er frambjóðandinn? – 7. sæti


Hver er frambjóðandinn? Við kynnum næsta til leiks hana Kristínu okkar. Hún er töffari sem fílar mótorsport! 😉

Nafn: Kristín Hartmannsdóttir.

Aldur: Fædd í nóvember 1983 sem gerir mig 34 ára.

Fjölskylduhagir: Er í sambúð með Guðna Grímssyni og eigum við saman 2 dætur, Eddu Björk 8 ára og Hólmfríði Eldey 2 ára.

Starf: Ég vinn sem gæðastjóri hjá Eyjablikk ehf.

Áhugamál: Ferðalög, matur og vín og svo er sameiginlegt áhugamál okkar Guðna mótorsport.

Sæti á lista: 7 sæti.

Hvað er gott við Eyjar: Nálægðin við náttúruna, kyrrðin og sjórinn. Samfélagið okkar er samheldið og traust. Hér er líka gott að ala upp börn. Það er jafnframt ómetanlegt að geta græjað bát á flot þegar manni dettur í hug og geta siglt í kringum eyjarnar okkar og/eða skroppið út í eyju,

Hvað má bæta í bæjarfélaginu: Meiri gagnsæi í stjórnsýslu, bókhald bæjarins á að vera opið og aðgengilegt. Íbúarnir þurfa að fá að hafa meiri áhrif. Opinber gögn þurfa að vera aðgengileg öllum bæjarbúum. Við eigum að geta fylgst með hvernig framkvæmdum á vegum bæjarins miðar, varðandi framgöngu og kostnað. Það þarf einnig að klára íbúagáttina og gera hana nothæfa fyrir íbúa. Ég myndi vilja sjá breytingar á stoðkerfi GRV og ég sé sóknarfæri í því að tónlistarskólinn verði hluti af GRV. Eins þarf að endurskoða og bæta frístundarstyrkinn.

Hvers vegna viltu nýta krafta þína í bæjarmálin: Ég vil búa í
eyjum og ég vil hafa áhrif á samfélagið mitt. Hér er búið að gera margt gott en margt má gera betur.

Af hverju X við H: Fyrir Heimaey leggur áherslu á samvinnu íbúa og bæjarstjórnar. Við viljum að íbúar finni það að hlustað sé á þá og að þeir taki þátt í ákvarðanatöku mikilvægra málefna sem snerta alla. Við viljum huga vel að eyjunni okkar og náttúru hennar með því að endurbæta umhverfisstefnu bæjarins. Ásamt því að huga að þeim tækifærum sem felast í fjölbreyttu fagfólki okkar og menntun þeirra þegar kemur að málefnum bæjarins og íbúa. Betur sjá augu en auga. Það er samfélaginu hollt að fá inn nýtt og ferskt fólk.

Verða ÍBV Íslandsmeistarar í handbolta: Já ég er fullviss um að þeir klári þetta með stæl.

Í hvaða sæti endar ÍBV í fótboltanum KK/KVK: Eins og ég sagði hér að ofan þá er ég meira fyrir mótorsport. En ég veit að bæði liðin okkar gera sitt besta og hafa stuðning allra eyjamanna og þannig munum við komast alla leið. Ég hinsvegar fylgist vel með 6.flokki kvenna í knattspyrnu og spái því að þar muni ríkja mikil gleði í sumar.

Eitthvað að lokum: Það þarf kjark til að breyta. Kjósum með hjartanu, fyrir Heimaey <3