Aðgengi fyrir alla


Árið 2001 fékk ég vinnu í Mosfellsbæ á Skálatúnsheimilinu. Ég myndi segja að þarna hafi orðið ákveðin straumhvörf í lífi mínu og kynntist ég einni af mínum fyrstu ástríðum, þ.e að starfa með einstaklingum með fatlanir. Árið 2005 útskrifaðist ég svo sem þroskaþjálfi og sýn mín á ansi marga hluti hafði breyst.

Spólum aðeins fram í tímann, það er komið árið 2011 og ég búin að vera starfandi sem formaður Ægis, íþróttafélags fatlaðra hér í Eyjum, í 5 ár. Við vorum að fara að halda okkar fyrsta bocciamót og lagðist ég í mikla rannsóknavinnu út frá aðgengi. Ég er oftast þekkt fyrir að taka hlutina dálítið alla leið og það gerði ég að sjálfsögðu í þessu tilfelli.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir sem er framkvæmdarstjóri útbreiðslu- og fræðslusviðs hjá Íþróttasambandi fatlaðra kom hingað og fundaði með mér ásamt bæjarstjóra og framkvæmdarstjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs. Á þeim tíma voru bæjarskrifstofurnar staðsettar í Ráðhúsinu. Hún vildi vita hver stefna bæjarins væri í þessum málum og varpaði fram spurningu sem mun alltaf sitja í mér. “Eftir hverju eruð þið að bíða?” Þið gætuð lent í slysi á morgun og þá kæmust þið ekki í vinnuna ykkar aðgengislega séð”. Það varð fátt um svör en þó sagt að sjálfsögðu yrði manneskjan borin upp ef þess þyrfti eða fundnar aðrar leiðir o.s.frv. “Heyrið” þið örugglega ekki öll hvað þetta hljómar illa? Áfram voru málin rædd og var fullmikið um kannski/ef að mínu mati. Að fundi loknum stóðum við upp og Anna Lína klikkti út með eftirfarandi setningu: “Hvorn ykkar viljið þið svo að við berum hérna niður tröppurnar?” Ég ætla ekkert að tíunda viðbrögðin við þessari spurningu frekar.

Einhverju síðar fór ég svo með góðvin minn hann Jón Heiðar, sem er bundin við hjólastól, hér um bæinn. Hann tók út helstu veitingastaði og gistiheimili ásamt öðrum stöðum sem vitað var til að við myndum notast við meðan á mótinu stæði. Ég get ekki sagt að bærinn minn hafi skorað hátt í þessari úttekt. Það sem situr ennþá mér er þessi eini í hjólastól sem treysti sér ekki til eyja út frá aðgengi (notabene þá hefur hann ferðast mikið í sínum þunga og stóra hjólastól). Að hans mati var of mikið af óvissuþáttum í aðgengismálum til þess að hann teldi sig geta komist hingað með góðu móti, þá sérstaklega út frá Herjólfi. Mikið vona ég að það hafi verið hugsað fyrir þessu í nýsmíðinni! Að móti loknu skilaði ég svo úttekt til Vestmannaeyjabæjar þar sem ég tiltók alla þá staði sem voru ekki viðunandi með myndum og öllu tilheyrandi.

Það sem angrar mig samt hvað mest er hvað lítið virðist hafa áunnist! Aðgengi takmarkast nefnilega ekki bara við fatlaða einstaklinga, aðgengi á að vera fyrir alla. Hvað með mömmur okkar og pabba, ömmur og afa sem þurfa að notast við hjólastóla eða önnur hjálpartæki? Það er verið að setja upp lyftur og byggja jafnvel ný húsnæði þar sem fyllstu reglna er ekki gætt. T.d bláu húsin í Sólhlíðinni fyrir 60 ára og eldri, þar komast sjúkraflutningamenn ekki með börurnar inn í lyftuna. Af hverju ekki að gera þetta almennilega frá upphafi og með smá fyrirhyggju?

Betur má ef duga skal! Ég spyr eins og Anna Lína vinkona mín: Eftir hverju erum við að bíða?

Kristín Ósk Óskarsdóttir

Höfundur er stjórnarmaður bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey.