Í upphafi skal endinn skoða


Við getum að ég held öll verið ánægð með þá þjónustuaukningu sem náðst hefur í viðræðum Vestmannaeyjabæjar við ríkið. Auðvitað viljum við öll aukið þjónustustig og bættar samgöngur, það er í raun frekar sérstakt að það sé gefið í skyn, eins og ég hef lesið undanfarið að H-listinn sé á móti samgöngubótum.

Ekkert er meira fjarri sannleikanum. Það sem ég er að benda á er að aukinni þjónustu hefði verið hægt að ná fram án þess að taka yfir áhættuna og ábyrgðina líka. Því er haldið fram af bæjarstjórn og ráðgjöfum hennar að það hafi ekki verið möguleiki.

Ég byggi þessa skoðun mína m.a. á lestri af undirrituðu minnisblaði frá Vegagerðinni dagsettu 9. mars 2018, en þar kemur eftirfarandi fram:
•„Hafa skal í huga að í núverandi rekstri og fyrri útboðum á rekstri Herjólfs eru veigamiklir óvissuþættir s.s. hversu oft er fært til Landeyjahafnar.“
•„Áréttað skal að mikil óvissa hefur ríkt og mun ríkja um tíðni siglinga Herjólfs í Landeyjahöfn yfir vetrartímann og verður engin breyting þar á með nýsmíðinni og hver tíðnin verður frá ári til árs mun ætíð sveiflast.“
•„Aðalkrafa Vestmannaeyjabæjar hefur verið fjölgun ferða, fyrst var krafan 8 ferðir á dag en er komin niður í 6 ferðir núna. Þessa tíðni má skilgreina í útboðsgögnum og fjölga ferðum ef þurfa þykir“

Í þessu minnisblaði mælir Vegagerðin með útboði og fjallar um að það sé hægt að setja þjónustuaukningu inn í útboðsgögnin. Ég byggi þessa skoðun mína einnig á undirrituðu bréfi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til Elliða Vignissonar, bæjarstjóra, dagsettu 13. apríl 2018, en þar kemur eftirfarandi fram:
•„Eftir ítarlega skoðun á öllum forsendum málsins tók núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákvörðun um að ákjósanlegast væri að bjóða rekstur skipsins út. Lagði hann til að samningstíminn yrði tvö ár, m.a. með hliðsjón af þeirri óvissu sem fylgir því að taka í notkun nýja ferju í siglingum milli lands og Eyja. Var bæjarstjórn Vestmannaeyja tilkynnt um þá ákvörðun á fundi 15. mars sl. Ráðherra lýsti því jafnframt yfir á fundinum að hann væri tilbúinn að gera ráð fyrir aukinni þjónustu við bæjarfélagið á forsendum útboðs.“

Þarna fer ekkert á milli mála að ráðherra var tilbúinn að setja inn aukna þjónustu við bæjarfélagið á forsendum útboðs.

Páll Guðmundsson segir í aðsendri grein á Eyjafréttum að ég geri mikið úr áhættu bæjarins. Ég bakka ekkert af þeirri skoðun að mér finnst áhættan mikil og áhætta sem í raun er óþarfi að taka. Eftir lestur ofangreindra minnisblaða er það ljóst að það hefði verið hægt að ná fram þjónustuaukningunni með því að setja hana inn í forsendur útboðs. Páll telur upp fimm atriði sem samningamenn bæjarins náðu fram varðandi að draga úr áhættu bæjarins. Mig langar að svara tveimur veigamestu punktunum sem þar koma fram.
1.Fjárhagsleg áhætta bæjarins takmarkast við stofnfé.

Það er mitt mat að málið sé ekki svo einfalt þegar bæjarfélag á í hlut. Hvað með siðferðislega ábyrgð? Horfir bæjarstjórnin og ráðgjafar hennar bara fram hjá henni? Auðvitað vil ég ekki að reksturinn gangi illa, en það er bara ábyrgt að gera ráð fyrir hinu versta áður en lagt er af stað. Ef svo óheppilega vildi til að reksturinn gengi illa og hið óstofnaða hlutafélag um rekstur Herjólfs myndi skulda mikið af fyrirtækjum í bænum peninga. Heldur þá einhver að það yrði tekin ákvörðun í bæjarstjórn að ganga frá þeim skuldum? Ég er ansi hræddur að ekki nokkur maður í bæjarstjórn myndi vilja taka slíka ákvörðun. Auðvitað takmarkast ekki ábyrgð bæjarins við þær 150 milljónir króna sem á að leggja fram sem stofnfé, tapið gæti orðið meira.
2.Fjárhagsleg áhætta Vestmannaeyjabæjar vegna reksturs Landeyjahafnar er ekki til staðar.

Yngvi Harðarson hjá Analytica situr í ráðgjafanefnd bæjarins. Sérsvið Yngva samkvæmt heimasíðu Analytica eru m.a. fjár- og áhættustýring og er frábært að hafa svo færan einstakling í nefndinni. Þegar ég spurði Yngva út í helstu áhættur Vestmannaeyjabæjar við reksturinn á kynningarfundi á Háaloftinu þann 28. apríl, hafði hann þetta að segja: „Ástandið í Landeyjahöfn er alveg sérstakur áhættuþáttur út af fyrir sig, því að siglingar þangað eru náttúrulega mikið hagkvæmari heldur en siglingar í Þorlákshöfn. Varðandi siglingar í Þorlákshöfn þá mun skipið þurfa að nýta olíu til siglinga, siglingin er of löng fyrir rafhleðsluna og minni ferðatíðni þangað sem þýðir óhjákvæmilega að það munu verða færri farþegar sem að geta farið þá leið heldur en um Landeyjahöfn, þannig að tekjurnar eru þá minni. Ég myndi segja svona að ástandið á Landeyjahöfn og það hversu vel tekst til að halda henni opinni sé þá kannski þegar öllu er á botninn hvolft einn stærsti áhættuþátturinn.“

Þarna segir Yngvi að helsti áhættuþátturinn sé Landeyjahöfn, er það nema von að maður spyrji sig spurninga þegar að menn sem eru helstu ráðgjafar bæjarins tala algjörlega í sitthvora áttina í mati sínu á áhættuþáttum verkefnisins.

Afstaða Sigurðar Inga, samgönguráðherra liggur fyrir. Hún er sú að það þjónustustig varðandi fjölda ferða og fargjöld, sem gert er ráð fyrir í samningnum við Vestmannaeyjabæ, hefði orðið hluti af útboðsskilmálunum ef bærinn hefði ekki tekið yfir reksturinn. Það var sem hægt að ná fram þjónustuaukningunni án þess að yfirtaka reksturinn með þeirri áhættu og ábyrgð sem því fylgir. Samningurinn er hinsvegar við það að verða undirritaður, við munum standa við hann og við skulum öll vona að hann reynist okkur vel.

Guðmundur Ásgeirsson

Höfundur skipar 4.sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.