Heilbrigðismál

Heilbrigðismál er oft í umræðunni í Vestmannaeyjum og við höfum sterkar skoðanir á þeim málaflokki. Vegna legu okkar og einangrunar erum við í sérstöðu hvað varðar flutning á veikum eða slösuðum, sé ekki talað um verðandi mæður.

Heilbrigðsstofnun Suðurlands hefur unnið að því að fá skilgreiningu frá ráðuneyti heilbrigðismála hver þjónustan eigi að vera hér. Heyrst hefur í umræðunni að hér verði að vera svæfingar-og skurðlæknir allt árið en eftir því sem best verður vitað er slíkt kostnaðarsamt og ekki á hreinu hvar sá kostnaður lendir miðað við skilgreint þjónustustig í dag.

Það hefur verið í umræðunni að leysa vandann með því að staðsetja sjúkraþyrlu á Suðurlandi og mun starfshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins skila af sér tillögum á allra næstu dögum. Það yrði bylting fyrir okkar samfélag ef þyrla yrði staðsett á okkar nærsvæði, með mönnun allan sólarhringinn af bráðalækni og bráðatækni.

Það yrði mikil aukning á gæðum og viðbragði á bráðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Það gæti einnig aukið á öryggi verðandi mæðra þegar viðbragðs-og flutningstími er styttur svona áþreifanlega. Það gæti gert það að verkum að fæðingum myndi fjölga aftur í Eyjum sem eru jákvæðar fréttir.

Það vekur furðu mína að núverandi bæjarfulltrúar minnihluta og meirihluta sýni þessu brýna hagsmunamáli okkar Eyjamanna engan áhuga og einblína einungis á eina lausn í þessu máli sem er á valdi annarra.

Ég hvet því frambjóðendur allra framboða að styðja við þessa hugmynd til að tryggja bætingu á þessari þjónustu til handa Eyjamönnum og þeirra sem heimsækja Heimaey.

Það breytir því samt ekki að það er full þörf á að á skilgreina og meta þörfina á hvernig læknauppsetning sé í Vestmannaeyjum til frambúðar og það er hlutverk kjörinna fulltrúa að veita yfirvöldum aðhald í þeim efnum.

Fyrir-Heimaey mun mæla áfram fyrir aukningu á gæðum heilbrigðisþjónustu og öruggum og skjótum flutningi á fólki sem þarf á því að halda.

Styrmir Sigurðarson

Höfundur skipar 12. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum.