Grunnforsendur nýrrar ferju brostnar

Svenni í lit_cr

Í ný undirskrifuðum samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar er fallið frá grunnforsendum við hönnun nýrrar ferju fyrir Vestmanneyinga.

Orðrétt segir í samningnum:“ Viðmiðunarmörkin eru ákveðin 3,5 m hæð kenniöldu miðað við stórstraumsfjöru og sveiflutíma vatnsdýpi á rifi 6,5 m og í hafnarmynni 6 m í stuttri öldulengd“.

Svipað viðmið og er í dag

Í forsendum fyrir nýju ferjunni stendur að hún geti örugglega siglt þegar kennialda á dufli við Landeyjahöfn er 3,5 m og dýpi á rifi 5 m og dýpi í hafnarmynni 4,5 m. Í samningnum góða er sem sagt gert ráð fyrir að til að uppfylla skilyrði fyrir því að sigla í 3,5 m ölduhæð þurfi dýpið að vera 1,5 m meira á rifi og í hafnarmynni.

Með öðrum orðum, til að nýja ferjan geti uppfyllt hönnunarkröfur þá má kennialdan ekki vera meiri en 2,0 metrar á dufli, eða svipað og í dag.

Sparnaðurinn virðist gufaður upp

Þetta þýðir að það verður í raun lítill sem engin munur á getu nýju ferjunnar og núverandi Herjólfs í siglingum til Landeyjahafnar, en mikill munur þegar siglt er til Þorlákshafnar, en gert er ráð fyrir 71 degi þangað á ári. Í minnisblaði unnið fyrir bæjarráð 4.12.2014 kemur fram að árlegur sparnaður við dýpkun fyrir nýja ferju sé 140 milljónir á ári. Sá sparnaður virðist gufaður upp.

Samgöngur á sjó eru ekki gamanmál. Er ekki kominn tími til að breyta um lið til að gæta okkar hagsmuna?

 

„Það þarf kjark til að breyta“

Kjósum með hjartanu Fyrir Heimaey.  X-H á kjördag.

 

Sveinn Rúnar Valgeirsson

 

Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum.