Hulin ráðgáta

Ráðningamál hjá Vestmannaeyjabæ hafa verið mér hulin ráðgáta í gegnum tíðina. Í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar er eitt af markmiðum “að ráða hæft, áhugasamt og traust starfsfólk og efla það í starfi.”

Ég efast ekki um ágæti starfsmanna Vestmannaeyjabæjar heldur hvernig er staðið að ráðningu þeirra starfsmanna sem hafa mikla ábyrgð í stjórnunarstörfum.

Samkvæmt heimasíðu Vestmannaeyjabæjar er m.a. auglýst eftir skólastjóra, leikskólastjóra og deildarstjóra. Hvers vegna fara þessar ráðningar ekki í gegnum fagaðila s.s. ráðningaskrifstofu? Og hvers vegna eru ekki sömu menntunarkröfur í sömu störf frá ári til árs? Við ráðningu skólastjóra árið 2013 og við ráðningu hjúkrunarforstjóra Hraunbúða síðasta vor var notast við ráðingaskrifstofu sem var til mikillar fyrirmyndar. En hvað hefur breyst? Hvað veldur þessum ólíku vinnubrögðum?

Á bæjarstjórnarfundi 15. maí sl. var samþykkt að stofna opinbert hlutafélag, Herjólfur ohf., ásamt því að samþykkt var tilnefnd stjórn. Ég velti fyrir mér hvernig ráðningar á framkvæmdastjóra nýs félags muni vera háttað miðað við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í öðrum ábygðarstörfum hjá Vestmannaeyjabæ. Mikilvægt er að við ráðningu framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. verði notast við ráðningaskrifstofu í ljósi þess hversu ábyrgðafullt starfið mun vera miðað við þá mörgu óvissuþætti sem til staðar eru.

Til þess að markmið um ráðningamál í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar náist þarf að tryggja að unnið sé faglega. Samræma þarf vinnubrögð við ráðningu starfsmanna og hætta að vera með geðþóttaákvarðanir um öll störf. Verum fagleg og látum fagaðila sjá um ráðningaferli í stjórnunarstöður hjá Vestmannaeyjabæ. Gefum okkur þann tíma sem til þarf.

 

Virkjum lýðræðið fyrir alla.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

 

Höfundur skipar 2. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitastjórnarkosningum.