Í aðdraganda kosninga

Nú eru örfáir dagar til kosninga í sveitastjórnum landsins. Landsmenn allir eru eflaust komnir með nóg af upplýsingum og loforðum á öllu milli himins og jarðar.

Við hjá Fyrir Heimaey einsettum okkur í byrjun að reyna eftir fremsta megni að fá umræðu um hvað mætti betur fara í okkar samfélagi. Við erum ungt bæjarmálafélag byggt á breiðum grunni fólks sem vill bæta samfélagið. Það hefur fallið í misjafnan jarðveg hjá þeim sem hafa setið við stjórnvölinn undanfarin ár og einnig þeim sem hafa unnið í minnihluta.

Það sem við teljum að við höfum allavega náð fram í þessari kosningabaráttu er að færa umræðuna að mestu leyti yfir á málefnalegar nótur. Þó hafa einhverjar undantekningar verið á því og fólk frekar hjólað í persónur, reynt að koma með fýlugreinar og margt annað sem að okkar mati er til að slá ryki í augun á kjósendum. Við viljum opnar umræður um hagsmunamál bæjarbúa, við viljum að fólk fái að hafa skoðanir og sé ekki hrætt við að tjá þær skoðanir án þess að vera sakað um sundrungartal eða óþarfa neikvæðnisathugasemdir.

Við sjáum það á stefnuskrám hinna framboðanna að við höfum allavega komið inn með ferska vinda í umræðuna. Það eru meira að segja framboð farin að tala um opnari stjórnsýslu og að framkoma fulltrúa bæjarins á öllum stigum sé framborin af auðmýkt og virðingu en samt formfestu og öruggrar hagsmunagæslu fyrir þessa gersemi sem bæjarfélagið okkar er. Fyrir það erum við stolt, því að við erum ungt afl og teljum okkur hafa margt fram að færa í umræðuna. Við höfum náð að breyta henni á jákvæðan hátt, án þess einu sinni að vera komin með kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Við göngum full sjálfstrausts og full af bjartsýni inn í þessa síðustu daga kosningabaráttunnar. Við teljum fulla þörf á að fólk þurfi að hafa valkost eins og við erum. Valkost sem fólk virðist samsvara sig við og þessar jákvæðu undirtektir sem við höfum fundið fyrir hjá flestum, gefa okkur svo mikið. Við ætlum að standa undir því nafni og málefnum sem við stöndum fyrir.

Það er líka ljúft á þessum degi að fagna nýjasta titlinum hjá ÍBV í handboltanum. Því að við stöndum einmitt fyrir það að styðja og styrkja þetta frábæra félag sem við eigum saman og sameinar okkur öll í þeirri gleði og sigurvilja sem við berum í brjósti okkar.

Setjum X við H á kjördag.

Fyrir Heimaey
Styrmir Sigurðarson

 

Höfundur skipar 12. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum.