Skólinn okkar skiptir máli


Skólamálin hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég menntaði mig sem grunnskólakennara og hef kennt á öllum stigum gunnskólans. Kennslan er að mínu mati mest gefandi starf sem hægt er að vinna við – en jafnframt það mest krefjandi.

Engir tveir dagar eru eins í kennslu – enda einstaklingarnir með eins ólkar þarfir og þeir eru margir. Við erum svo lánsöm að í Vestmannaeyjum eru öll börn í sama grunnskóla – sem er vel mannaður og mikill kraftur býr í öllu starfsfólki skólans.

Tækifærin okkar liggja í því að ýta undir og styðja við þann metnað og fagmennsku sem er í skólanum. Til að hægt sé að ná fram því besta hjá öllum einstaklingum þurfum við gott stoðkerfi sem styður við það góða starf sem unnið er. Þetta stoðkerfi þarf að bæta og það á að gera eftir tillögum fagfólks innan skólans sem er best til þess fallið að meta þörfina hverju sinni.

Á skólaskrifstofunni er líka mikil fagþekking og samspilið á milli skólans og skólaskrifstofu á að vera þróttmikð og skapa frjóan jarðveg til að efla og styrkja leik- og grunnskólana okkar. En bæjaryfirvöld þurfa líka að koma þar að með áhuga, metnaði og frumkvæði að auknu samstarfi og samráði skólastarfinu til heilla. Stjórnsýslan þarf að treysta stjórnendum til að reka skólana og veita þeim frelsi til þess, innan þess ramma sem þeim er skapaður í fjárhagsáætlun.

Gleði, öryggi og vinnátta eru gildi Grunnskóla Vestmannaeyja og er okkur öllum gott leiðarljós. Tökum höndum saman, eflum og styrkjum okkar góða grunnskóla, það skiptir okkur öll máli.

Íris Róbertsdóttir

Höfundur skipar 1. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.