Fyrir Heimaey


Við sem stöndum að framboðinu komum úr ýmsum áttum – úr starfi og námi. Sum okkar hafa áður tekið þátt í pólitísku starfi – önnur ekki. Það sem sameinar okkur hér og nú er viljinn til að láta gott af okkar leiða fyrir bæinn okkar – Fyrir Heimaey

Margt er vel gert hjá Vestmanneyjabæ, mörg verkefni sem eru spennandi og tímabær sem teygja sig vel inn á næsta kjörtímabil. Það er þó ýmislegt sem við teljum að megi betur fara – og það snýr ekki síst að vinnubrögðum og verklagi.

Við teljum að það eigi að stórauka allt upplýsingastreymi til bæjarbúa. Það er líka orðið löngu tímabært að koma hér á beinu íbúalýðræði um mikilsverð mál. Þessi afstaða til íbúalýðræðis er auðvitað alveg óháð því hvaða skoðun maður hefur sjálfur á einhverju tilteknu máli. Þetta snýst einfaldlega um aðferðir við að leiða mál til lykta – og afstöðu bæjaryfirvalda til bæjarbúa.

Við á H-listanum höfum svarað þessari spurningu fyrir okkar leyti. Við viljum þetta virka samtal við bæjarbúa – og öfluga upplýsingagjöf sem aftur skapar grundvöll fyrir víðtæku og beinu íbúalýðræði.

Málefnastarfinu okkar er að ljúka og verður stefnuskráin kynnt fljótlega. Mikið af fólki hefur komið að þeirri vinnu á málefnafundum og með ábendingum. Rauði þráðurinn í þeirri vinnu er ákall um samtal, samvinnu, gegnsæi, traust og að þjónustan sem veitt er verði á forsendum íbúanna.

Næstu vikur munum við nota til að kynna fyrir bæjarbúum hvað það er sem við stöndum fyrir. Það ætlum við gera á uppbyggilegan hátt – með jákvæðni, bjartsýni og gleðina að vopni.

Íris Róbertsdóttir

Höfundur skipar 1. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.