Hver er frambjóðandinn – 11. sæti


Hver er frambjóðandinn?? Þetta er dásemdardúllan hún Guðný! Kökurnar og gúmmelaðið sem að hún virðist framleiða í svefni er eitthvað sem við mælum með að þið prófið með því að kíkja í kaffi til okkar í Miðbæ! 😊

Nafn: Guðný Halldórsdóttir

Aldur: 43 ára

Fjölskylduhagir: Ég er gift Gústafi Adolfi Gústafssyni og saman eigum við fjögur börn. Arnar Smára 25 ára sem er í sambúð með Guðrúnu Báru Magnúsdóttur og eiga þau eina dóttur hana Oktavíu Dröfn sem er 5 mánaða. Svo eru það Egill Aron 21 árs, Elliði Snær 14 ára og Rakel Perla 12 ára.

Starf: Ég er sjúkraliði og vinn á Þjónustumiðstöð fatlaðra (Sambýlinu)

Áhugamál: Áhugamálin eru margvísleg en ég hef gaman af allri útiveru, ferðalögum og handavinnu. Númer 1, 2 og 3 er þó fjölskyldan mín og nú litla ömmuskottið sem ég sé ekki sólina fyrir.

Sæti á lista: Ég er í 11.sæti Fyrir Heimaey

Hvað er gott við Eyjar: Náttúrufegurðin er einstök, mannlífið er dásamlegt, íþróttastarfið er öflugt og að alast hér upp eru forréttindi. Hér er bara einfaldlega best að búa.

Hvað má bæta í bæjarfélaginu: Margt er vel gert en alltaf má bæta. Við verðum að leggja meiri metnað og stórbæta aðstöðu og opnunartíma fyrir unga fólkið okkar. Ég vil að útisvæðið við sundlaugina sé opið mun stærri part úr ári, þar þarf að leita leiða til að gera það mögulegt. Mig langar að sjá upphitaða innilaug þar sem væri hægt að vera með endurhæfingu, sundleikfimi og ungbarnasund. Sorpmálin eru í lamasessi og þarf að laga stöðina sjálfa, umhverfið í kring, bæta sorphirðuna í bænum og ákveða hvað við ætlum að gera við sorpið hér. Allt umsóknarferli hjá bænum þarf að endurskoða og koma á rafrænt form. Ég myndi vilja sjá fjölskyldureit þar sem stórir og smáir geta komið saman, með leikaðstöðu og hreyfitækjum. Hlutir sem eru á herðum ríkisins eins og heilbrigðismálin verðum við að standa saman með og berjast fyrir að hér sé öflugri heilbrigðisþjónusta. Aldraðir og fatlaðir er sá hópur sem þarf að huga vel að. Ég vil sjá gegnsærri stjórnsýslu og lýðræðislegri vinnubrögð.

Hvers vegna viltu nýta krafta þína í bæjarmálin: Mér þykir ákaflega vænt um bæinn okkar og fólkið sem hér býr. Ég hef áhuga á öllu sem snýr að samfélaginu okkar og er tilbúin til að taka þátt í að skapa hér enn öflugra samfélag.

Af hverju X við H: Því Fyrir Heimaey er stór hópur af flottu fólki, traustu og ábyrgu sem vill vinna samfélaginu okkar til heilla.

Verða ÍBV Íslandsmeistarar í handbolta: Að sjálfsögðu vinnum við FH og verðum Íslandsmeistarar, strákarnir hafa staðið sig stórkostlega vel. Áfram IBV

Í hvaða sæti endar ÍBV í fótboltanum KK/KVK: Ég spái því að strákarnir lendi í 6.sæti og stelpurnar endi í 3.sæti

Eitthvað að lokum: Kjósum með ❤ Fyrir Heimaey